Nú er í gangi lokaátak í loðnuleit. Ekki hefur enn tekist að finna nægilegt magn til þess að endanlegur kvóti geti verið gefinn út. Í Morgunkorni Glitnis segir að íslensku skipin hafa einungis veitt tæp 30 þúsund tonn í ár samkvæmt upplýsingum Fiskistofu.

Í samanburði við mörg síðustu ár er þetta ástand óvenjulegt. Þó ber að hafa í huga að loðnuveiðin undanfarin tvö fiskveiðiár var langt undir meðaltali áranna á undan (05/06: 194 þús. tonn og 06/07: 307 þús. tonn). Ef veiðin á yfirstandandi vertíð bregst er ljóst að eitthvað óvenjulegt er að gerast með loðnustofninn. Við búumst þó við að áfram verði leitað. Hegðun loðnunnar er óútreiknanleg og ekki útilokað að hún finnist á næstu dögum í veiðanlegu magni. Þessi dráttur á loðnuveiðinni eru slæm tíðindi fyrir sjávarútvegsfyrirtækin þar sem afurðaverð er hátt og staða krónunnar hagstæð fyrir þau. Mikið í húfi Útflutningsverðmæti loðnuafurða nam 9,5 milljörðum króna árið 2007. Óvenjulega mikið var unnið til manneldis í fyrra. Sjávarútvegsfyrirtækin hafa fjárfest umtalsvert í frystiskipum og frystihúsum til vinnslu uppsjávarfisks á undanförnum árum. Það er því mikið í húfi fyrir sjávarútvegsfyrirtækin og þjóðarbúskapinn í heild að loðnan finnist á næstu dögum segir í morgunkorninu.