ikil óvissa ríkir á markaði með mjólkurkvóta og verð á honum hefur lækkað verulega það sem af er ári. Tvær meginástæður eru taldar vera fyrir lækkuninni og er önnur þeirra stóraukin eftirspurn eftir mjólk umfram kvóta. Hin ástæðan er sú að mikil óvissa ríkir nú meðal bænda í ljósi þess að búvörusamningar renna út þann 31. desember 2016 og því óvíst hvort og að hvaða marki greiðslumark með mjólk muni áfram veita rétt til beingreiðslna úr ríkissjóði eftir þann tíma. „Núverandi samningur gildir bara út 2016,“ segir Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Eðlilegt sé að slíkt fyrirkomulag geti fælt bændur frá því að fjárfesta í mjólkurkvóta. Í Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti stendur nú yfir heildarendurskoðun á búvörusamningum og ekki liggur fyrir að svo stöddu hvort og að hvaða leyti þeim verður breytt. Núverandi samningur tryggirbændum 51,26 krónur í beingreiðslur úr ríkissjóði fyrir hvern mjólkurlítra, eigi þeir mjólkurkvóta, sem bætist á afurðastöðvaverð sem sé 82,92 krónur á lítrann. Eigi bændur engan kvóta fá þeir hins vegar eingöngu greitt afurðastöðvaverð fyrir mjólk.

Óvissa fælir frá fjárfestingu

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu þann 21. ágúst hefur verð á mjólkurkvóta lækkað töluvert það sem af er ári. Á tilboðsmarkaði með mjólkurkvóta í apríl lækkaði lítraverðið úr 320 krónum í 260 krónur og einungis tvö kauptilboð bárust í mjólkurkvóta, borið saman við 57 tilboð í fyrra. Sölutilboð voru 28 í apríl á þessu ári og framboð því langt umfram eftirspurn. Tilboðum í greiðslumark með mjólk var lokað að nýju þann 25. ágúst og niðurstöður á tilboðsmarkaði Matvælastofnunar verða birtar þann 1. september næstkomandi. „Það er mikil óvissa í kringum þetta núna. Verðið fer lækkandi og eftirspurnin hefur dregist mjög verulega saman, en það er spurning hvað gerist í framhaldinu. Við fylgjumst mjög spenntir með niðurstöðunum,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .