Raforkuþörf Eyjafjarðar er um 100 megavött og fer vaxandi. Framleidd eru 8 megavött á svæðinu og er nauðsyn flutnings á raforku á svæðið æpandi. Þetta sagði Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð, á aðalfundi Samorku í morgun að því er fram kemur á vef samtakanna .

Þar greindi hann frá erlendum aðila sem hefur óskað eftir 10 megavöttum í atvinnuskapandi fjárfestingu í bæjarfélaginu sem skapa myndi um 120 ný störf og umtalsverðar tekjur fyrir sveitarfélagið. Sagði hann fjárfestinguna nema 17 milljörðum króna.

Hins vegar sé óvissa um verkefnið vegna takmarkana í flutningskerfi raforku. Hann sagði öfgahópa ekki mega stöðva uppbyggingu flutningakerfis raforku, og værukærir stjórnmálamenn, sveitarstjórnarfólk og hagsmunaaðilar væru sofandi á verðinum.

Sagði Bjarni að leysa yrði málið hið fyrsta þar sem það þyldi enga bið.