Óvissa virðist ríkja um hver fari með 10% eignarhluta í Storebrand sem tilkynnt er að hafi verið seldur að kröfu Royal Bank of Scotland.

Fyrst kom tilkynning um að skilanefnd fyrirhönd norska ríkisins hefði tekið bréf Kaupþings í Storebrand í sína vörslu en síðan kom tilkynning til norsku kauphallarinnar þess efnis að Royal Bank of Scotland hefði selt eignarhlutinn í Storebrand.

„Við teljum að annað hvort eigi ábyrgðarsjóður innistæðueigenda eða skilanefndin í Kaupþingi [í Noregi] að ráða yfir þessum bréfum,“ segir Bjørn Skogstad Aaamo í samtali við Dagens Næringsliv.

Skilanefndin yfir Kaupþingi í Noregi ætlar sér að rannsaka málið og reyna að rifta sölu RBS á bréfunum.

„Við getum reynt að rifta sölunni ef það kemur í ljós að þetta séu bréfin sem ábyrgðarsjóðurinn tók yfir. En fyrst munum við reyna að komast að því hvað raunverulega hefur átt sér stað. Það er óljóst,“ segir Bård Borgersen, formaður skilanefndarinnar.