Óvissa er um stuðning fimm þingmanna Sjálfstæðisflokksins við nýjan Icesave-samning. Þau Birgir Ármannsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Pétur Blöndal og Unnur Brá Konráðsdóttir gefa ekki upp afstöðu sína. Þá hefur Guðlaugur Þór ekki gert upp hug sinn.

Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar . Segir að öll forysta Sjálfstæðisflokksins styðji formanninn í málinu, eftir því sem fréttastofa Stöðvar 2 kemst næst. Bjarni Benediktsson formaður flokksins lýsti í gær yfir stuðningi við nýjan Icesave-samning.

Birgir Ármannsson segist ekki vera sammála meirihluta þingflokks. „Það liggur alveg fyrir að ég er ekki samstíga meirihluta þingflokksins eins og hún birtist í niðurstöðunni út úr fjárlaganefnd. Afstaða mín að öðru leyti mun birtast í þinginu," segir Birgir. Hann segir ljóst að óánægja sé meðal margra sjálfstæðismanna. „Ég held að það leiki enginn vafi á því að það eru skiptar skoðanir innan flokksins um þetta mál."