Tekjur af jólatónleikahaldi hafa verið um og yfir hálfan milljarð síðustu þrjú árin, mest árið 2017 þegar þær námu rúmlega 800 milljónum króna en eins og fjallað er um í korni greiningardeildar Íslandsbanka er óvissa nú um tónleikahaldið vegna kórónuveirufaraldursins.

Í desember hefur velta innlendra greiðslukorta á Íslandi numið að meðaltali 81 milljarði króna, og er hlutfall jólatónleika af því um 0,6%. Hver seldur miði kostaði rétt yfir 7 þúsund krónum á árunum 2016 til 2019, og voru þá seldir um 75 þúsund miðar hjá þeim aðilum sem gögn bankans ná yfir hvert ár, utan ársins 2017 þegar seldir voru yfir 100 þúsund miðar.

Þar með gætu um fjórðungur þjóðarinnar misst af hluta jólahefða sinna ef ekki verður hægt að halda jólatónleika með hefðbundnu sniði fyrir þessi jól, þó bent sé á að mögulega verði hluti tónleikanna seldur í gegnum streymi.

Þannig er þegar búið að boða að Jólatónleikum Björgvins Halldórssonar verði streymt gegn gjaldi, sem nemur um 4.836 krónum, meðan gjald á tónleikana hefur verið á bilinu 10 til 15 þúsund krónur síðustu ár.

Þar sem Björgvin hélt fjóra jólatónleika í Eldborgarsal Hörpu þar sem rúmlega 1.800 manns komast í sæti, má reikna með að ef allir miðar hafi selst upp hafi um 7.200 einstaklingar séð sýninguna síðast. Ef helmingur þeirra kaupir aðgang að streyminu nú gætu tekjurnar numið tæplega 14,5 milljónum króna.