Talsverð óvissa ríkir nú um þróun afurðaverðs í sjávarútvegi en í kjölfar hamfaranna í Japan er verðmyndun á loðnuhrognum í uppnámi. Ástæðan er sú að aðrir kaupendur miða greiðsluvilja sinn yfirleitt við það verð sem fæst í Japan samkvæmt frétt RÚV enda er stór hluti loðnuhrogna seldur til Japan.

Haft er eftir Stefáni Friðrikssyni, forstjóra Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, að það svæði er verst varð úti í jarðskjálfta og flóðbylgju föstudagsins sé þekkt fyrir matvælavinnslu. Nú sé bara að bíða og sjá hver þróun mála verði enda sé skiljanlegt að Japanir hafi um annað að hugsa á næstunni.