Óvissa í tengslum við hvaða reglur gilda um sýningarrétt á ensku knattspyrnunni er til þess fallin að hækka verð á vörunni til neytenda. Þetta segir forstjóri Símans, en félagið varð nýverið hlutskarpast þegar sýningarrétturinn fyrir árin 2022-2025 var boðinn út.

Undanfarið hefur mátt merkja þróun erlendis á þá vegu að útsendingar frá stærri íþróttaviðburðum, á borð við enska boltann eða stórmót í knattspyrnu, kunni að teljast sérstakur markaður. Svo hefur ekki verið á Íslandi hingað til en lesa má úr ummælum í nýlegum ákvörðunum SKE, sem varða fjarskipta- og fjölmiðlamarkað, að það kunni að breytast.

„Þegar Sýn og forverar þess héldu á réttinum, meira og minna alla þessa öld, var þetta efni aldrei skilgreint sem sérmarkaður, ekki einu sinni allt íþróttaefni í heild, hvað þá ein deild. Þegar við fengum sýningarrétt að þessari tilteknu deild í fótbolta til okkar höfðum við ekki sérstaklega í hyggju að flækja virðiskeðjuna, tæknina, reikningagerðina og skilaboðin til neytenda og að selja efnið bæði í smásölu og heildsölu,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans. Þær áætlanir hafi aftur á móti breyst sumarið 2019, en fyrr það ár hafði Sýn kvartað undan meintum brotum Símans til SKE.

Þá um sumarið lá fyrir frummat SKE en samkvæmt því var ekki loku fyrir það skotið, en þó ekki slegið föstu, að enski boltinn gæti talist sérstakur markaður. Afréð Síminn þá að semja um heildsölu bæði til Sýn og Nova til að vera réttum megin línunnar ef til þess kæmi að á reyndi.

„Þótt við værum algerlega ósammála því mati að reglustýringin varðandi þetta tiltekna íþróttaefni ætti að breytast við það eitt að við héldum tímabundið á því, þá varð það niðurstaðan í ljósi vafans sem uppi var. Í síðasta mánuði var komið að því að bjóða aftur í réttinn og höfðum við þá tvívegis samband við SKE bréflega til að reyna að fá svör við því hvort heildsölukvöð fylgdi réttinum eður ei,“ segir Orri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .