*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Innlent 19. september 2019 19:00

Óvissan niður á við

Seðlabankastjóri: Ég óttast að ó­vissan sé niður á við, að þetta sé of gott til að vera satt.

Ritstjórn
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri.
Haraldur Guðjónsson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að hann óttaðist að hagvaxtarspár væru of bjartsýnar. Ástæðuna sagði hann vera óvissa um stöðuna í ferðaþjónustunni, versnandi horfur í efnahagskerfi heimsins. Þá væri gengi krónunnar sterkt. 

„Ég óttast að ó­vissan sé niður á við, að þetta sé of gott til að vera satt,“ sagði Ásgeir. 

Fleiri greinendur hafa í dag lýst yfir efasemdum um að hagvaxtarspár fyrir næsta ár muni standast en flestar hljóða þær upp á 2% hagvöxt. Forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, Daníel Svavarsson, metur svo að núverandi hagvaxtarspár séu í bjartsýnni kantinum.

Ásgeir sagði stöðu hagkerfisins nú vera ólíka fyrri góðærisskeið um ýmislegt.  Einka­neysla hefði minnkað úr sex­tíu prósentum í fimm­tíu prósent á síðustu árum og sparnaður aukist. „Einka­neyslan áður var svo skuld­sett. Af því að við erum ekki að sjá einka­neysluna skuld­setta og erum ekki að sjá lækkun kaup­máttar, þannig séð, út af því hvað verð­bólga hefur verið stöðug, erum við ekki að sjá inn­lenda eftir­spurn hrynja eins og áður,“ sagði Ás­geir.