Þrátt fyrir að flestir sérfræðingar telji neyðarlán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) til íslenska ríkisins vera jákvætt skref ríkir enn mikil óvissa um hvort eða hvernig Ísland ætli að greiða af hinum miklu skuldum sem íslensku bankarnir stofnuðu til á sínum tíma.

Fram kemur í umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar að þrátt fyrir að neyðarlán IMF sé mikilvægt skref í átt að stöðugleika hér á landi telji sérfræðingar lykilspurninguna vera hvernig íslensk stjórnvöld ætla að leysa vandamálin sem tengjast erlendum skuldum bankanna.

Fréttaveitan vísar í nýja greiningu sænska bankans SEB að þegar lánveiting IMF verður til reiðu þá geti íslensk stjórnvöld afnumið takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum og smám saman muni eðlilegt ástand komast á viðskipti Íslands við umheiminn.

Hinsvegar segja sérfræðingar SEB að alvarlegasta vandamálið sem steðjar að Íslandi sé það vantraust sem ríkir gagnvart bankakerfi landsins og er það sagt eiga yfir höfði sér málaferli vegna hrunsins sem átt hefur sér stað fyrr í þessum mánuði.

Fram kemur í umfjöllun Dow Jones að þeir sem fylgjast með málefnum Íslands velti enn þá fyrir sér hvort eða þá hvernig íslensk stjórnvöld ætla að standa í skilum af hinum miklu lántökum bankanna, en þau nema margfaldri þjóðarframleiðslu landsins.