Lífeyrissjóður Stork, Stork BV og fyrirtæki sem áður tilheyrðu Stork samsteypunni í Hollandi hafa komist að rammasamkomulagi um nýja tilhögun á rekstri lífeyrismála. Marel á aðkomu að samningnum í gegnum Stork Food Systems. Áætlaður heildarkostnaður Marel vegna þessa nemur um 10 milljónum evra og er reiknað með að hann verði bókfærður sem einskiptiskostnaður á öðrum ársfjórðungi 2011.

Í fréttatilkynningu segir að lykilatriði í rammasamkomulaginu er nýr samningur um lífeyrisskuldbindingar sem tryggir hagsmuni starfsfólks en er á sama tíma hagfelldur fyrir Marel þar sem hann eyðir áhættu félagsins af ótilgreindum lífeyrisskuldbindingum til framtíðar.

Haft eftirTheo Hoen, forstjóra Marel, að þessi samningur sé mjög jákvæðir fyrir alla hlutaðeigandi. Samningurinn „leggur traustan grunn til lengri tíma litið hvað lífeyrismálin varðar og eyðir þeirri áhættu sem hefur fylgt núverandi fyrirkomulagi vegna ótilgreindra fjárskuldbindinga til framtíðar. Allir sem komið hafa að samningsgerðinni hafa sýnt mikla einurð og ábyrgð og afraksturinn er niðurstaða sem er hagstæð fyrir alla aðila,“ er haft eftir Hoen.

Orðrétt segir í tilkynningu:

Annar mikilvægur liður í samkomulaginu er fyrirhugaður flutningur á rekstri sjóðsins til Metal-Electro (PME), sem hefur umsjón með lífeyrissjóðsréttindum starfsfólks í iðngreininni almennt í Hollandi, með það að markmiði að ná fram aukinni stærðarhagkvæmni og áhættudreifingu. Samkomulag hefur náðst við fulltrúa starfsfólks fyrirtækjanna um flutninginn og hafa viðræður hafist milli PME og lífeyrissjóðs Stork.

Samkomulagið á eftir að fara fyrir Seðlabanka Hollands, sem er eftirlitsaðili með þessum málaflokki, til samþykktar. Þá þarf fulltrúaráð lífeyrissjóðs Stork einnig að samþykkja samkomulagið. Áætlaður heildarkostnaður Marel vegna þessa nemur um 10 milljónum evra og er reiknað með að hann verði bókfærður sem einskiptiskostnaður á öðrum ársfjórðungi 2011, til greiðslu á fjórum árum.