Arctic Oddi ehf., Valþjófur ehf. og Vísir hf. hafa gert með sér samkomulag sem felur í sér að Arctic Oddi mun flytja starfsemi sína frá Flateyri í húsnæði sem var í eigu Vísis á Þingeyri. Með samkomulaginu segjast fyrirtækin styrkja til langframa stoðir atvinnulífsins á Flateyri og Þingeyri auk þess að eyða þeirri óvissu sem hafi verið um atvinnustarfsemi á stöðunum að undanförnu.

Arctic Oddi mun sinna vinnslu og pökkun á eldisfiski á Þingeyri auk þess að sinna frekari uppbyggingu fyrir fiskeldi sitt. Starfsemin á Þingeyri kallar á um 15 störf í upphafi og mun þeim hugsanlega fjölga í hlutfalli við uppbyggingu fyrirtækisins.

Þá munu 20 ársstörf skapast við vinnslu bolfisks á Flateyri þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Valþjófur tekur við fasteignum og tækjum Arctic Odda á staðnum. Fyrirtækið mun einbeita sér að fullvinnslu bolfisks, bæði frá Flateyri og Þingeyri.

Með samkomulaginu lýkur aðkomu Vísis að útgerð og vinnslu á Þingeyri sem félagið hefur staðið að síðustu fimmtán og munu aðrir aðilar taka við áframhaldandi rekstri og uppbyggingu. Vísir mun stunda fiskvinnslu á Þingeyri fram í mars á næsta ári.

Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Byggðastofnunar sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir um miðjan desember.