Þegar Seðlabanki Íslands gaf út tilkynningu í sumar um að athugun hans hefði leitt i ljós að ýmsar tegundir samninga erlendra tryggingafélaga fælu í sér óheimilan sparnað hafði það slæmar afleiðingar í för með sér fyrir Allianz á Íslandi. Starfsemin stöðvaðist og félagið varð tekjulaust í þrjá mánuði. Þetta segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Forsaga málsins er sú að í júlí 2011 hóf Seðlabanki Íslands rannsókn á því hvort samningar erlendra tryggingafélaga sem boðnir eru til sölu hér á landi brytu gegn fjármagnshöftum samkvæmt lögum um gjaldeyrismál. Þann 17. júní síðastliðinn birti Seðlabankinn svo tilkynningu á vefsíðu sinni þar sem fram kom að athugun bankans hefði leitt í ljós að ýmsar tegundir samningar fólu í sér óheimilan sparnað eða söfnun erlendis. Umboðsaðilar þessara erlendu tryggingafélaga hér á Íslandi eru Allianz á Íslandi, Sparnaður og Tryggingamiðlun Íslands.

Birting ákvörðunar Seðlabankans í sumar kom Allianz í opna skjöldu og sendi félagið frá sér tilkynningu þar sem fram kom að Seðlabankinn hefði ekki sett sig í samband við félagið né tilkynnt því um breytingarnar. Óskaði Allianz þá eftir fundi með Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu til þess að fara yfir málið. Það var svo í byrjun septembermánaðar að samkomulag náðist milli allra aðila sem gerði erlendum tryggingafélögum og viðskiptamönnum þeirra hér á landi kleift að viðhalda óbreyttu samningssambandi. Í samkomulaginu fólst jafnframt að tryggingafyrirtæki kæmu með erlendan gjaldeyri til landsins til mótvægis við yfir helming framtíðariðgjaldagreiðslna sem úr landi færu til þess að draga úr neikvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð landsins.

Nánar er fjallað um málið í Lífeyrir & tryggingar sem fylgdi með Viðskiptablaðinu þann 30. október.