Vafi leikur á því hvort ákvæði í lögum um meðferð sakamála sem heimili símhleranir lögreglu standist ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs. Þetta kom fram í máli Reimars Péturssonar hrl. á málþingi Orators, félags laganema við HÍ, í gær. Málþingið var haldið til að fjalla um símhlustanir lögreglu en aðrir framsögumenn voru þau Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Reimar telur íslensku lögin ekki nógu nákvæm til að fullnægja skilyrðum MSE, sem kveði á um að lagaákvæði sem heimili íþyngjandi rannsóknaraðgerðir lögreglu þurfi að vera ótvíræð um það hvenær, við hvaða aðstæður og með hvaða hætti slíkar aðgerðir séu heimilar.

„Íslensku lögin eru afskaplega opin og fábrotin um öll þessi atriði og það er vafasamt að þau fullnægi þessum kröfum. Veita dómurum óheft mat nánast um hvenær símhlustun fer fram," sagði Reimar í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Kolbrún Benediktsdóttir sagðist jafnframt taka undir sjónarmið Reimars að vissu leyti. Lögin væru ónákvæm og ekki sérstaklega skýr.