Ekki liggur fyrir hvað háar fjárhæðir sparast í þeim tillögum sem hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar undir forystu Ásmundar Einars Daðasonar skilaði af sér í gær. Haft er eftir Ásmundi í Fréttablaðinu í dag að tillögurnar muni hafa í för með sér tugmilljarða króna ávinning.

„Þar er meiningin að hvert og eitt ráðuneyti fari yfir þær og vinni þær áfram,“ segir hann.

Ásmundur bendir á að það hafi ekki verið hlutverk nefndarinnar að reikna út hvað tillögurnar muni hafa mikinn sparnað á ríkisútgjöldum í för með sér. Hann nefnir þó verðmiðlunargjald, í mjólk, bankasýsluna og Bændasamtökin sem séu einfaldar niðurskurðartillögur. Þá er lagt til að skorið verði niður í framlögum til utanríkismála og þróunaraðstoðar.