Ekki er búið að ákveða hvaða lykilstjórnendur Eimskips fá kauprétt að hlutum í félaginu. Stefnt er að því að skrá Eimskip í Kauphöllina í september.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær að lykilstjórnendur Eimskips geti fengið um 3,5% hlut í Eimskip. Virði hlutarins getur numið á bilinu 875 milljónum króna til tæpra 1,4 milljarða miðað við að heildarvirði Eimskips hlaupi á 25 til 39 milljörðum króna.

Fram kemur í umfjöllun fréttastofunnar í dag, að ekki sé búið að útfæra á hvaða gengi stjórnendur Eimskips fá að kaupa hluti í félaginu eða hvort þeir fá hlutina án greiðslu. Þá kemur fram að frekari útlistun á kaupréttarkerfinu muni liggja fyrir þegar skráningarlýsing verða lögð fram í aðdraganda Kauphallarskráningar.

Haga-fólk fékk á þriðja hundrað milljónir

Skemmst er að minnsta þess að lykilstjórnendur Haga fengu hluti í félaginu fyrir skráningu á markað án endurgjalds í samræmi við samkomulag við þá. Nafnvirði hlutanna nam 26,7 milljónum króna að nafnvirði. Markaðsvirði hlutanna nam 265 milljónum króna í lok síðasta rekstrarárs félagsins. Finnur Árnason forstjóri og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, áttu meirihlutann, hluti fyrir 78,5 milljónir hvor að markaðsvirði.

Fram kemur í síðustu ársskýrslu Haga , að lykilstjórnendur fyrirtækið hafi skuldbundið sig með samkomulaginu til að starfa fyrir Haga til 30 . júlí næstkomandi. Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, ber allar skattgreiðslur vegna samninganna.