Ekki liggur fyrir hvenær Advania verður skráð á hlutabréfamarkað. Að sögn Stefáns Hrafns Hagalín, upplýsingafulltrúa félagsins, er félagið reiðubúið til skráningar og hefur á síðustu árum hagað sér líkt og skráð félag með uppgjörum og reikningsskilastöðlum.

Það sé hins vegar undir eigendum komið hvenær félagið fari á markað. Framtakssjóður Íslands á 75% hlutafjár og gera áætlanir sjóðsins ráð fyrir skráningu. Raunar hefur skráning á markað verið boðuð um nokkra hríð án þess að af henni hefur orðið. Framtakssjóðurinn gefur ekkert upp um hvenær fyrirtæki í eigu sjóðsins verða skráð á markað, að öðru leyti en að því verði lokið árið 2014.