Almenningur getur ekki vitað hvenær og við hvaða aðstæður lögregla hefur heimild til að nota skotvopn. Um slíkt gilda reglur sem settar voru árið 1999 af þáverandi innanríkisráðherra, en þær eru ekki aðgengilegar almenningi. Þetta var haft eftir Jóni Bjartmarz, yfirlögregluþjóni hjá embætti ríkislögreglustjóra í Kastljósi.

Hann segir sérsveit ríkislögreglustjóra hafa séð um þjálfun á H&K MP5 hríðskotabyssum sem voru fluttar til landsins í byrjun árs. 250 lögreglumenn hafi til þessa sótt tveggja daga námskeið til að læra á vopnin. Hugmyndir hafa verið viðraðar um að lögregluembætti hafi byssurnar í lögreglubílum, en Jón segir slíkt ekki vera breytingu á stefnu lögreglunnar um vopnaburð eða aðgang að skotvopnum.

Í Kastljósi kom einnig fram að ekki hafi staðið til að leyna almenning neinu, þó að ekki hafi verið vakin sérstök athygli á þjálfun eða innflutningi vopnanna. „Lögreglan ætlar ekki að fela neitt," segir Jón.