Donald Trump, forsetaefni Repúblikana, hafði orð á því í kappræðum kvöldsins að það væri óvíst um hvort að hann myndi una niðurstöðum kosninga vestanhafs.

Þegar spyrillinn Chris Wallace spurði hann hvort að hann myndi una kosningum gerðist Trump nokkuð óræðinn í svörum og sagði; „Ég mun líta á það þegar að því kemur.“ Hann bætti svo við því að hann vildi halda fólki spenntu Þetta er meðal þess sem kemur fram í frétt CNN um málið.

Rýrir hlut lýðræðis

Clinton brást við þessum umdeildu ummælum Trump með því að kalla þau „hrylling“ og benda á að það sé 240 ára hefð fyrir friðsamlegum valdaskiptum í Bandaríkjunum og að það myndi rýra hlut lýðræðis í landinu ef að Trump stæði við það sem hann sagði.

Spilltir fjölmiðlar

Kappræðurnar voru haldnar í University of Nevada í Las Vegas. Þar sakaði Trump einnig fjölmiðla um að vera spillta og vonaðist frambjóðandinn einnig til þess að hinn almenni kjósandi myndi sjá í gegnum blekkingarleik þeirra.

Hillary í betri stöðu

Hillary Clinton, forsetaefni Demókrata, hefur talsvert forskot á Donald Trump samkvæmt nýjustu könnunum. Samkvæmt mati bandarísku vefsíðunnar FiveThirtyEight , er talið að 87,3% líkur séu á sigri Hillary, en einungis 12,6% líkur á sigri Trump. Fylgi Trump hefur hríðfallið eftir að upptaka af honum tala gífurlega niðrandi til kvenna komst á yfirborðið.