Ekki hefur verið gengið frá því hver fer fyrir rekstri Landsbankans og Glitnis eftir að skilanefndir hafa skilað af sér sinni vinnu til nýrrar bankastjórnar. Þetta kom fram í máli Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra á blaðamannafundi í Iðnó í dag.

„Halldór [J. Kristjánsson] og Sigurjón [Þ. Árnason] voru bara fengnir til að leiða bankann í gegnum þessa daga og sólarhringa sem eru að líða núna. Svo er það ný bankastjórn sem tekur ákvörðun um það hver rekur bankana. Þannig að það liggur ekkert fyrir um það."

Björgvin sagði að þegar Fjármálaeftirlitið hefði farið inn í bankana hefði skipt mestu máli að tryggja að öll almenn starfsemi bankanna héldi áfram næstu daga eins og ekkert hefði í skorist. Annars vegar gagnvart viðskiptavinum og hins vegar gagnvart starfsfólkinu.