Óvissa er eina orðið sem hægt er að nota í samhengi við Icesaveinnistæðureikninga Landsbankans. Í fyrsta lagi fást engar upplýsingar frá Landsbankanum um fjölda reikninga, en eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst eru þeir á bilinu 250-350 þúsund. Í öðru lagi fást ekki upplýsingar um meðalinnistæðu á hverjum reikningi, en nauðsynlegt er að vita hver hún er til þess að reikna út ábyrgðina sem gæti fallið á íslenska ríkið vegna málsins.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í þessari viku var samkomulagið þannig að Tryggingarsjóður innstæðueigenda átti að tryggja sparifé á Icesave-reikningum upp að 20.887 evrum og sambærilegur breskur ríkissjóður bilið á milli 20.887 evra og 50.000 punda. Nú hefur breska ríkisstjórnin tilkynnt breskum eigendum Icesavereikninga að þeir muni ábyrgjast allt sparifé þeirra. 50.000 punda þakið hefur því verið tekið af. Samkvæmt breskum fjölmiðlum eru um 300.000 Icesave-reikningar í umferð í Bretlandi og talið er að um 15.000 Bretar eigi yfir 50.000 pund á slíkum reikningum.

Talið er að það taki nokkra mánuði fyrir sparifjáreigendur að fá peninga sína til baka, og þarf að sækja sérstaklega um það. Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að innistæður í pundum í bankanum hafi numið 989 milljörðum króna við birtingu hálfsársuppgjörs en að þær hafi lækkað frá þeim tíma.

Erfitt að meta innistæður í krónum

Gengisvísitala íslensku krónunnar hefur verið á fleygiferð síðustu daga og hvert gengið er í raun og veru er mjög óljóst. Vegna þessa er fremur erfitt að setja tölurnar í íslenskt samhengi. Blaðamaður hefur ákveðið í útreikningum sínum að styðjast við gengið eins og það var samkvæmt Markaðsvakt Mentis kl. 15 í gærdag. Þá stóð evran í 190 krónum og pundið var 170 krónur. Umfjöllunin sem á eftir fer miðast við það gengi. Í húfi eru miklir fjármunir því ef eignir Landsbankans dekka ekki innistæður á Icesave-reikningum, leggst hluti ábyrgðarinnar á íslenska ríkið. Í allra versta falli gæti sú ábyrgð numið 500-1000 milljörðum króna. Talan þúsund milljarðar miðast við það að reikningarnir séu 300.000 og að hver og einn viðskiptavinur eigi a.m.k. 20.887 evrur, eða 3,9 milljónir íslenskra króna, inni á reikningi sínum. Útilokað er þó að svo sé, og gera má ráð fyrir að meðalfjárhæð á hverjum reikningi sé mun lægri en sem því nemur.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .