Talsverð aukning hefur verið á frakt og farþegum í áætlunarflugi hjá Flugleiðum á fyrstu níu mánuðum ársins ef miðað er við sama tíma í fyrra. Farþegaaukning hjá Icelandair er 18,2%, hjá Flugfélagi Íslands var aukningin 15,0%, sömuleiðis flutti Flugleiðir-Frakt 29% meira í ár og 78,8% aukning var á fartímum hjá Loftleiðum-Icelandic. Þess ber þó að geta að olíuverð hefur hækkað talsvert á milli ára og hefur einnig orðið vart við aukna samkeppni á markaðssvæði félagsins.

Í fréttatilkynningu sem fylgdi ársuppgjöri í lok febrúar var gert ráð fyrir um 12% aukningu á framboði í áætlunarflugi hjá Icelandair á árinu og 20% aukningu yfir sumartímann. Það er mat Greiningardeildar Landsbankans að það sé erfitt að segja til um hvort sætanýting félagsins sé betri í ár miðað við sama tíma í fyrra. Einnig var gert ráð fyrir auknum umsvifum annarra dótturfyrirtækja á árinu og er því einnig erfitt að meta hvort aukning hjá Flugfélagi Íslands og Flugleiðum-Frakt hafi skilað aukinni framlegð til félagsins.