Ekki liggur fyrir hvort Ikea á Íslandi lækki verð á vörum verslunarinnar til samræmis við lækkun virðisaukaskatts úr 25,5 prósentum í 24 prósent, sem tók gildi nú um áramótin.

Í hádegisfréttum RÚV var haft eftir Þórarni Ævarssyni, framkvæmdastjóra Ikea, að stjórnendur fyrirtækisins hefðu ekki tekið ákvörðun um hvort lækkun virðisaukaskatts skili sér að fullu til viðskiptavina. Um litla lækkun sé að ræða í samanburði við sveiflur á gjaldeyrismarkaði sem hefðu meiri áhrif á vöruverð.

Hins vegar bendir Þórarinn á að Ikea hafi lækkað vöruverð um fimm prósent að meðaltali þann 1. september. Þá verði vöruverð lækkað til samræmis við afnám vörugjalda, auk þess sem verð á veitingum hafi ekki hækkað þrátt fyrir hækkun virðisaukaskatts á matvæli úr sjö prósentum í ellefu.