Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins verður hugsanlega upplýst í dag hvaða áform Norðurál hefur varðandi stækkun í Helguvík.

Fundur hefur verið boðaður með sveitastjórnaraðilum á Reykjanesi nú kl. 18 þar sem farið ferður yfir atvinnumál svæðisins.

Norðurál hefur lýst yfir áhuga sínum að byggja álverið í fjórum áföngum fram til 2015 og hafa það stærra en stefnt hefur verið að hingað til. Óvíst er hins vegar hvort orka fæst, nema gripið verði til vatnsaflsvirkjana.

Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, er engan veginn ljóst hvað hitaveitan getur útvegað mikla orku komi til þess að álverið í Helguvík verði stækkað úr 250 þúsund tonnum upp í 360 þúsund tonn.

„Það getur oltið á leyfum og öðru slíku hvað við getum útvegað mikla orku. Við teljum að svæðin séu til staðar en það er alltaf óvissu háð. Við höfum rannsóknarleyfi á fimm til sex svæðum og þar af á þremur sem ekki eru virkjuð í dag."

HS er nú með virkjanir í Svartsengi og Reykjanesi og telja forráðamenn félagsins að hægt sé að bæta við virkjun í Eldvörpum.

Að sögn Júlíusar telja vísindamenn að þrjú til fjögur svæði séu á Krísuvíkursvæðinu. Samkvæmt síðustu rammaáætlun voru skilgreind þar fjögur svæði: Seltún, Austurengjar, Sandfell og Trölladyngja. Þar hafa verið uppi grófar áætlanir um að hvert og eitt svæði geti gefið 100 MW en Júlíus sagðist ekki geta sagt til um hvort það væri rétt.

„Það eru klárlega ákveðnir möguleikar þarna," sagði hann. HS telur sig geta gengið að 150 MW í Eldvörpum á Reykjanesi.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.