Gert er ráð fyrir að Icesave málið komi til annarar umræðu á Alþingi á morgun. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa verið vangaveltur meðal þingmanna um það hvort óskað verði eftir lengingu ræðutíma en samkvæmt þingsköpum geta þingflokkar farið fram á slíkt.

Sjálfstæðismenn óskuðu eftir lengingu umræðunnar í kringum ESB málið og hafa þar með nýtt sína heimild til þess að sögn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, sem er formaður þingflokks Sjálfstæðismanna, í fjarveru Illuga Gunnarssonar sem gifti sig um síðustu helgi. Að sögn ragnheiðar vildu Sjálfstæðismenn gjarnan sjá þann möguleika en ljóst væri að heimildin væri ekki lengur hjá þeim.

Þingflokkur Framsóknar kemur saman til fundar kl. 17 á eftir. Að sögn Gunnars Braga Sveinssonar, formanns þingflokks Framsóknar, hefur engin ákvörðun verið tekin um það hvort óskað verður eftir lengingu ræðutíma og taldi hann það fremur ólíklegt. Hann sagði of snemmt að segja til um það þar sem dagskrá fundarins lægi ekki fyrir. ,,Málið er komið í ákveðinn farveg og það er ekki mikill vilji til þess hjá Framsókn að lengja umræðuna," sagði Gunnar Bragi.

Gert er ráð fyrir að nefndarálit liggi fyrir í kvöld og verði útbýtt til þingsins sagði Guðbjartur Hannesson, formaður  fjárlaganefndar. Frá minnihluta fjárlaganefndar munu koma tvö álit; frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum en fyrrnefndi flokkurinn hefur lýst því yfir að hann sé efnislega samþykkur þeim fyrirvörum sem nú liggja fyrir.