Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs Group, segir of snemmt að segja til um hvað félagið hyggst fyrir með hlut sinn í bresku verslanakeðjunni Woolworths.

Gengi bréfa félagsins hefur lækkað mikið að undanförnu, en nokkurra rekstrarerfiðleika hefur gætt hjá Woolworths.

Íranskur fasteignajöfur, Ardeshir Naghshineh að nafni, hefur upp á síðkastið byggt upp 10,2% hlut í félaginu, en í lok júní fór sá íranski fyrst yfir flöggunarmörk.

Unity Investments heldur utan um hlut Baugs og Kevin Sanford í félaginu sem nemur nú 10%. Baugur er því ekki lengur stærsti hluthafi félagsins.

Gengi bréfa hefur lækkað um 66,6% síðastliðið ár í kauphöllinni í London. Aðspurður um fyrirætlan Baugs með hlutinn í Woolworths segist Gunnar ekki geta greint frá því á þessu stigi.

„Bréf félagsins hafa lækkað talsvert mikið að undanförnu. Við höfum þó sagt að slík þróun geti boðið upp á ýmsa möguleika,“ segir Gunnar en vildi ekki tjá sig um hvort til stæði að selja Naghshineh ýmsa eignaleigusamninga í eigu Woolworths, né heldur hvort meiri eða minni líkur væru á brotthvarfi Unity Investments úr verslanakeðjunni.

Að frátöldum slæmum horfum í efnahagslífi heimsins, rekur Gunnar lækkun Woolworths fyrst og fremst til versnandi horfa í smásölubransanum.

„Woolworths hefur átt undir högg sækja í nokkurn tíma og smásöluhluti þess hefur sýnt versnandi afkomu um skeið. Fjárfestar hafa að sama skapi áhyggjur af smásölubransanum öðrum fremur.“