Fjármálaeftirlitið (FME) vinnur nú að hæfismati á forstjórum og stjórnum fjölda fjármálafyrirtækja. Þótt hert hæfismat FME sé tilkomið eftir að skipað var í skilanefndir gömlu bankanna er að sjálfsögðu ekkert sem bannar að FME framkvæmi slíkt mat á skilanefndarmönnum nú, og því spurði Viðskiptablaðið eftirlitið hvort til stæði að gera það og eins hvort FME hefði kannað skuldastöðu skilanefndarmanna eða skuldastöðu félaga í þeirra eigu gagnvart föllnu bönkunum.

Í skriflegu svari FME segir að það hæfismat sem nú er verið að vinna á stjórnendum fjármálafyrirtækja sé umfangsmikið verkefni og því sé á þessari stundu „erfitt að gefa svar við því hvort ráðist verður í hliðstætt hæfismat innan eldri fjármálafyrirtækja“.

Hvað varðar könnun á skuldastöðu skilanefndarmanna svarar FME því til að það veiti „ekki upplýsingar um einstök samskipti við eftirlitsskylda aðila á borð við hvort það hafi kallað eftir ákveðnum upplýsingum eða ekki“.