Óvíst er með stöðu Steins Loga Björnssonar, forstjóra Skipta, eftir að fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta lýkur innan fárra vikna. Endurskipulagningin er nú á lokametrunum og mun samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins að öllu óbreyttu klárast í kringum næstu mánaðamót.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur það verið rætt hvort rétt þyki að skipta um forstjóra í félaginu að lokinni endurskipulagningu. Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst hefur málið þó ekki verið rætt á stjórnarfundi í Skiptum þó svo að það hafi verið rætt með óformlegum hætti utan stjórnar.

Þau Helgi Magnússon, þá stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) og nú varaformaður LV, og Heiðrún Jónsdóttir, stjórnarformaður Gildis lífeyrissjóðs, tóku sæti í stjórn Skipta í byrjun þessa árs ásamt Benedikt Sveinssyni, sem nú er stjórnarformaður. Auk þeirra sitja Dagný Halldórsdóttir og Magnús Sch. Thorsteinsson, forstjóri Klakka (áður Exista), í stjórninni.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Helgi haft frumkvæði að því að láta skipta um forstjóra hjá Skiptum og viðrað þá hugmynd við aðra sem að málinu koma. Meirihluti stjórnar Skipta hefur þó ekki tekið vel í hugmyndina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.