Óvissa ríkir um hvort stjórnvöld í Finnlandi styðji björgunaraðstoð Evrópusambandið hyggst veita Portúgal. Sannir Finnar, sem fengu 19% fylgi í kosningum um helgina, hafa lýst því yfir að þeir séu mótfallnir aðstoð. Ólíkt öðrum Evrópusambandsríkjum þarf finnska þingið að samþykkja stuðning við björgunaraðstoð. Samþykki þarf frá öllum ríkjum ESB fyrir björgunaraðstoð.

Financial Times fjallar um málið í dag. Nokkur titringur varð vegna niðurstöðu kosninganna í Finnlandi, en ný ríkisstjórn hefur ekki verið mynduð í landinu. Óttast er að aðstoðin gangi ekki í gegn ef flokkur Sannra Finna sest í ríkisstjórn, sem þykir afar líklegt. Embættismaður Finna í Brussel segir þó að það sé ekki sjálfgefið að Finnar beiti neitunarvaldi. „Skilaboð mín til Evrópu yrði: Verið róleg,“ segir embættismaðurinn við Financial Times.Hann ítrekar að stuðningur Finna við evrusvæðið hafim alla tíð verið til staðar og verði það áfram.

Fulltrúar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum, Evrópusambandinu og Portúgal hittast í dag til þess að ræða skilmála björgunaraðstoðarinnar.