Þegar Viðskiptablaðið leitaði til nokkurra lífeyrissjóða í gærdag lá ekki fyrir hvort og þá í hvaða mæli þeir myndu taka þátt í útboðinu á hlutafé í Eimskipi. Þeir sem Viðskiptablaðið ræddi við nefndu einkum tvo þætti sem draga úr áhuga á hlutabréfakaupum í félaginu. Það eru hátt útboðsgengi og kaupréttarsamningarnir sem gerðir hafa verið við æðstu stjórnendur.

Stjórnendur sjóðanna sögðu að fjárfestingin væri til skoðunar og gáfu sér frest til dagsins í dag en þá lýkur lokaða útboðinu. Einhverjir þeirra tóku fram að þeir hafi ekki heyrt af áætlunum annarra lífeyrissjóða.

Lífeyrissjóðir skipa stóran hluta þeirra fagfjárfesta sem fengu að taka þátt í lokaða útboðinu. Ljóst má vera að þátttaka þeirra er lykilforsenda fyrir því að útboðið heppnist vel.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.