Vísitala neysluverðs lækkaði óvænt um 0,2% á milli október og nóvember. Spár sem birtar voru opinberlega gerðu ráð fyrir 0,1% til 0,2% hækkun vísitölunnar og reiknaði Greining Íslandsbanka með 0,1% hækkun. "Spáskekkjan okkar skýrist einkum af því að verð á dagvörum lækkaði á milli mánaða en í spánni var reiknað með verðhækkun. Verð nýrra bíla lækkaði einnig meira en gert var ráð fyrir í spánni. Eldsneytisverð lækkaði í takti við spá og íbúðaverð hækkaði talsvert, eða um 0,9% líkt og spá okkar gerði ráð fyrir," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Hagstofan birtir næst vísitölu neysluverðs mánudaginn 12. desember.

Verðbólgan mælist nú 4,2% og minnkar frá fyrri mánuði þegar hún var 4,6%. "Tíðindin verða að teljast góð og ekki síst fyrir Seðlabankann. Vaxtastefna bankans hefur þrýst niður verði á innfluttum vörum og unnið þannig gegn verðbólgu. Talsvert hefur dregið úr verðhækkun húnæðis að undanförnu og má reikna með því að lítil verðhækkun sé framundan á þeim markaði. Þá hefur heimsmarkaðsverð á eldsneyti lækkað að undanförnu og gengi krónunnar hækkað. Flest bendir því til þess að áfram dragi úr verðbólgu á allra næstu mánuðum," sgir í Morgunkorni Íslandsbanka.