Þrír fjárfestingahópar munu bjóða í hlut ítalska ríkisins í flugfélaginu Alitalia en yfirvöld opinberuðu hverjir það eru í gær. Sérstaklega kom á óvart að rússneska flugfélagið Aeroflot lagði fram tilboð í samstarfi við ítalska bankann Unicredito Italiano. Auk þessa tilboðs lögðu einkafjárfestingasjóðirnir Texas Pacific Group og MatlinPatterson í samstarfi við Mediobanco og hópur fjárfesta sem Carlo Toto, framkvæmdastjóri Air One, sem er næst stærsta flugfélag Ítalíu, leiðir fram tilboð í Alitalia. Hlutabréf í félaginu ruku upp um níu prósent á mörkuðum í gær og er hækkunin meðal annars rakin til áhuga Aeroflot .

Ítalska ríkið á 49.9% í Alitalia og hefur ríkisstjórn landsins lýst því yfir að hún hyggist selja að minnsta kosti 39.9% hlutabréfa fyrir júnímánuð. Hóparnir þrír hafa frest fram til 16. apríl til þess að leggja fram frumtilboð með verðhugmyndum. Allir hóparnir eru í samstarfi við ítalska aðila en hins vegar er eignarhlutur Unicredit í samstarfsverkefninu með Aeroflot lítill en rússneska flugfélagið fer með 95% eignarhlut. Ef Aeroflot kemst í ráðandi stöðu í ítalska flugfélaginu er um að ræða eina djörfustu yfirtöku rússnesks fyrirtækis á evrópsku frá því að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hóf að tryggja yfirráð ríkisvaldsins yfir veigamiklum geirum í hagkerfinu.