Afkoma Danske Bank fyrir 2. fjórðung þessa árs var betri en spáð hafði verið, en bankinn hagnaðist um 3,2 milljarða danskra króna (um 52,5 milljörðum íslenskra króna), tæplega hálfum milljarði meira en meðalspá greiningaraðila gerði ráð fyrir samkvæmt frétt Børsen.

Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður bankans 3,8 milljörðum danskra króna. Hagnaður Danske Bank hefur nú dregist saman fjóra ársfjórðunga í röð.

Danske Bank hækkaði um 5% við opnun markaða í dag en sú hækkun hefur gengið til baka að einhverju leyti, en bankinn hefur þegar þetta er skrifað hækkað um 2% í dag samkvæmt upplýsingum frá Bloomberg. Danske Bank hefur hækkað um 13% í þessari viku.

„Gott gengi Danske Bank slær á ótta manna um frekara tap vegna fjármálakreppunnar. Vafalaust mun það smita út frá sér, og valda hækkun Jyske Bank og Sydbank,“ segir í frétt Børsen.