Alþjóðlegu samtökin Oxfam, sem vinna að því að koma á sanngjarnari alþjóðaviðskiptum, hafa gefið út nýja skýrslu um fataframleiðendur og aðstæður í verksmiðjum þeirra í Asíu. Í skýrslunni kemur fram að framleiðendur á borð við Adidas, Nike, Puma og Fila hafa ekki komið til móts við kröfur sem settar hafa verið fram um aukið öryggi og bætt kjör verkamanna í Sri Lanka, Indónesíu og Tælandi.

Oxfam hefur í tólf ár fylgst með aðstæðum í verksmiðjum vestrænna fataframleiðenda í Asíu, en á undanförnum árum hefur framleiðsla fatnaðar færst þangað í auknum mæli þar sem vinnuafl er mun ódýrara en í Evrópu og Bandaríkjunum. Árið 2004 sendi Oxfam, ásamt fjölda alþjóðlegra verkamannasamtaka, áskorun til fyrirtækjanna þar sem þau voru hvött til að gera átak í þessum málum. Ný skýrsla Oxfam sýnir hinsvegar fram á að lítill árangur hefur náðst.

Meirihluti þeirra sem að vinna í verksmiðjunum eru konur og jafnvel börn sem tilheyra fátækustu hópum samfélagsins. Í mörgum verksmiðjum er unnið dag og nótt á löngum vöktum við aðstæður sem jafnvel ógna öryggi og heilsu verkamannanna. Yfirleitt er tímakaupið ekki hærra en einn dollari á tímann og þeir sem gera athugasemdir við kaup og kjör eru í flestum tilvikum reknir. Í mörgum tilvikum er þetta eina atvinnan sem býðst og verkamennirnir eru því fastir á milli steins og sleggju.

Skýrsla Oxfam, sem dregur fram hvernig fatafyrirtækin hafa staðið í þessum málaflokki síðastliðin 12 ár, sýnir að bandaríska fyritækið Fila hefur staðið sig einna verst hvað varðar aðstæður í verksmiðjum sínum en skóframleiðandinn Rebook hefur staðið sig best. Að mati Oxfam er árangurinn þó í heild lítill og fyrirtæki á borð við Nike, Adidas, Puma og Asics eiga ennþá langt í land.

Oxfam hefur í kjölfar niðurstaðna skýrslunnar ákveðið að hrinda af stað kynningarátaki í tenglsum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram fer í sumar. Átakinu er ætlað höfða til þeirra neytenda sem kaupa íþróttafatnað og auka vitund þeirra um þann raunveruleika sem á sér stað bak við tjöldinn. Oxfam telur að eina leiðin til að fá fyrirtækin til að taka sig á sé að upplýsa neytendur á Vesturlöndum í von um að þrýstingur á fyrirtækin flýti breytingum til batnaðar.