Jákvæðar fréttir hafa undanfarið borist frá Oz Communications Inc. sem er með höfuðstöðvar sínar í Montreal í Kanada. Skúli Mogensen fer fyrir félaginu en það er í eigu hans og stjórnenda OZ, ásamt bandaríska áhættufjárfestingarsjóðnum Vantage Point Venture Partners, sem fjárfesti í OZ fyrir um tvo milljarða króna fyrir skömmu. "Þetta eru tímamót fyrir okkur eftir óneitanlega mjög erfiða tíma undanfarin ár eins og hjá flest öllum hugbúnaðarfyrirtækjum í tækni- og fjarskiptageiranum almennt. Þetta er mikill sigur fyrir okkur og það er almennt farið að birta til yfir geiranum," segir Skúli í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

Skúli bendir á að þróun í heimi fjarskipta hafi haldið áfram af fullum krafti - sérstaklega á sviði samskipta - þó svo að fjárfesting í geiranum hafi látið á sér standa, en sú þróun sé nú að koma upp á yfirborðið. Skúli vill ekki gefa upp hversu stóran hlut Vantage Point hafi keypt í félaginu. Ný stjórn hefur tekið til starfa hjá OZ og koma tveir nýir reynsluboltar úr fjarskiptageiranum inn í hana, Chris Burke fyrrverandi framkvæmdastjóra tæknimála hjá Vodafone og Bill Clift fyrrverandi framkvæmdastjóri tæknimála hjá Cingular. "Það er lykilatriði að fá öflugt lið með sér og þetta eru menn með gríðarlega tæknilega þekkingu en einnig innsýn inn í þróun mála á fjarskipamarkaði almennt."

Þó svo að OZ nafnið sé gamalkunnugt er í raun um nýtt félag að ræða, sem Skúli og samstarfsmenn hans hafa unnið við að byggja upp á um einu og hálfu ári. En hvað er það sem félagið gerir í dag. "Við höfum verið að þróa tvær vörur, annars vegar hugbúnað sem við seljum til símaframleiðenda og tengist skyndiskilaboðaþjónustu sem er merkt Microsoft, AOL og Yahoo! Símaframleiðendur setja okkar hugbúnað merktan MSN, AOL og Yahoo inn í símana þannig að neytendur geta nálgast skyndiskilaboðaþjónustur á farsímum með sama viðmóti, notendanafni og leyninúmeri og það notar við tölvuna sína - það er lykilatriði," segir Skúli. "Til að hugbúnaðurinn í símunum tengist síðan almennilega PC-hugbúnaði á borð við AOL, MSN og Yahoo! Messenger, þá bjuggum við til gátt sem við seljum símafélögunum sjálfum."

OZ hefur nú þegar selt símafélögunum AT&T og T-Mobile þjónustu sem lýst er hér að ofan en það sem OZ er í raun að gera er að færa spjallrásir og þjónustu sem henni tengist inn í farsímana, en til þessa hafa spjallrásirnar eingöngu verið aðgengilegar í gegnum tölvur eða með WAP viðmótum. Símaframleiðendur á borð við Nokia, Sony-Ericsson, Siemens og Samsung, hafa þegar sett hugbúnað frá OZ í síma sína að sögn Skúla, en hann bendir á að með búnaði frá OZ takist símafélögunum að halda utan um spjallrásirnar og rukka fyrir þá þjónustu sem veitt sé líkt og um SMS-skilaboð væri að ræða. En þýðir þetta að OZ sé komið á flug"Við látum verkin tala en fréttir liðinna vikna eru ánægjulegar eftir mjög erfiða tíma og fjárfestingin í fyrirtækinu gefur okkur svigrúm til að auka við okkur auk þess að veita okkur staðfestingu á því að við erum á réttri leið," segir Skúli í Viðskiptablaðinu í dag.