OZ sem sérhæfir sig í dreifingu á íþróttaefni út um allan heim hefur hafið samstarf við IMG sem á sýningarréttinn á Kínversku Ofurdeildinni út um allan heim. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá OZ. IMG er stærsta dreifingarfyrirtæki í heiminum á íþróttaefni og á meðal annars bardagadeildina UFC, sem Gunnar Nelson keppir í.

“Kínverska ofurdeildin hefur mikið verið í fréttum undanfarið og þá sérstaklega fyrir þá miklu fjármuni sem félagsliðin hafa verið að borga fyrir leikmenn úr Evrópu . Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur að taka þátt í því að kynna deildina í Evrópu og Ameríku í samstarfi við IMG. Þetta er viðamikið verkefni og mjög spennandi að vinna með einu stærsta fyrirtæki í þessum heimi. Áskrifendur geta horft á beinar útsendingar frá leikjum í deildinni og horft á kynningar- og uppgjörsþætti frá hverri umferð, segir Arnar F. Reynisson, yfirmaður sölu- og markaðssviðs OZ í fréttatilkynningunni.

OZ mun sýna beinar útsendingar frá Kínversku ofurdeildinni í 18 löndum, þar á meðal á Íslandi, Ameríku, Norðurlöndunum, Spáni og Ástralíu. Fyrsta útsendingin verður þann 17. júní næstkomandi þegar leikur Guangzhou Evergrande gegn Guizhou Hengfeng verður sýndur, en Guangzhou Evergrande eru ríkjandi meistarar.

OZ var stofnað 2009 og annast alþjóðlega dreifingu og sölu á aðgangspössum fyrir beinar útsendingar á íþróttaviðburðum. OZ hefur höfuðstöðvar og þróunarmiðstöð í Reykjavík og söluskrifstofur í Helsinki, Stokkhólmi og London.