Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið OZ hélt á dögunum viðburð í United Artist leikhúsinu við Ace hótelið í miðborg Los Angeles til að fagna opnun nýrrar sjónvarpsþjónustu hjá fyrirtækinu sem er nú aðgengileg um heim allan. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að um 800 manns úr kvikmynda-, sjónvarps-, tónlistar-, og skemmtanaiðnaðinum voru viðstaddir viðburðinn.

Þjónustan gerir hverjum sem er kleift að búa til sína eigin áskriftarstöð og velja sér áskriftargjald sem hentar hverri og einni sjónvarpsstöð. Meðal þeirra sem kynntu nýjar stöðvar á OZ og komu fram voru íslensku hljómsveitirnar GusGus, Retro Stefson og Samaris. Guðjón Már, framkvæmdastjóri OZ segir þó að kerfið snúist ekki eingöngu um tónlist því skapandi einstaklingar úr öllum geirum séu að setja upp rásir á OZ.

Hver sem er getur sett upp rás

Á fyrstu dögum eftir opnun þjónustunnar voru um 600 rásir standsettar af einstaklingum og fyrirtækjum frá yfir 300 borgum víða um heim, en þjónustan er opin í yfir 150 löndum. Hvort sem um er að ræða kvikmyndir, íþróttir, barnaefni, matreiðslu, tónlist eða kennsluefni. Hver sem er getur sett upp rás í gegnum þjónustuna og stjórnar hver og einn verði sinnar rásar. OZ sér svo um drefingu á heimsvísu og innheimtu áskriftargjalda. Eigendur stöðva fá svo 70% áskriftartekna greitt út í hverjum mánuði. „OZ er einfaldlega fyrir alla sem vilja afla sér tekna með áskriftarrás á netinu“ er haft eftir Guðjóni í tilkynningunni. „Við höfum séð kennara frá Afríku opna stöð á OZ. Við höfum einnig séð fjölmarga notendur á öllum aldri opna fyrir stöðvar um sín áhugamál, eins og hjólabretti, jóga, klettaklifur, tónlist og listir.“

Undanfarin ár hefur OZ þjónustað íslenskar sjónvarpstöðvar með dreifingu á efni í gegnum farsíma og verður sú þjónusta óbreytt að sinni. Eina breytingin sem núverandi notendur OZ appsins sjá er að nafn appsins breytist í OZ Ísland við nýjustu uppfærslu. “Við höfum átt mjög farsælt samstarf með innlendum aðilum og erum nú að aðstoða innlendu stöðvarnar í að færa sig yfir í þessa nýju þjónustu hjá okkur.” segir Guðjón.