„Við erum að sækja inn á markaði sem eru viðráðanlegri fyrir lítið nýsköpunarfyrirtæki þar sem hugmyndum eins og þessum er tekið fagnandi,“ segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Oz.

Stjórnendur Oz hafa ákveðið að fara þá leið að leita inn á aðra markaði en þá allra stærstu eins og þann bandaríska þegar kemur að því að kynna sína lausn. Magnús segir vissulega ákveðna varfærni í þeirri áætlun.

Eitt af tækifærunum sem stjórnendur Oz sjá er að opna á að notendur utan eigin heimalands geti sótt sér efni þaðan. „Þarna er feikilega stórt tækifæri. Áskorunin felst í réttindum á sjónvarpsefninu. Mjög oft erum við að semja við aðila sem er ekki eigandi efnisins heldur hefur rétt til dreifingar á efninu á takmörkuðu svæði. Þannig að við erum að reyna að finna okkur leið til að vinna að vöruþróun og aðgengi að efni á forsendum notandans og þannig opna glufurnar. Þetta verður langt ferðalag hjá okkur en þess vegna erum við líka að velja okkur staði eins og Pólland. Þar er ríkissjónvarpið tilbúið að opna á dreifingu. Við getum dreift flottum pakka um allan heim til pólskumælandi manna utan Póllands sem er mjög stór hópur,“ segir Magnús sem bendir þó á að vöruúrval til notenda fyrst um sinn verði yfirleitt betra á innanlandsmarkaði en á alþjóðamarkaði.

„Það verður miklu erfiðara og ekki í fyrirsjáanlegri framtíð að alþjóðlegt Hollywood efni verði aðgengilegt alls staðar í heiminum en þó kannski á mörkuðum eins og í Póllandi þar sem tungumálið eitt og sér veitir ákveðna vörn gagnvart frekari dreifingu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .