Pólska farsímafyrirtækið P4, sem er í eigu fjárfestingafélagsins Novators og pólska símafyrirtækisins Netia, ætlar sér að ná 25% markaðshlutdeild á pólska farsímamarkaðnum, segir í frétt Reuters fréttastofunnar.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á 70% hlut í P4 en Netia 30%. Novator á einnig um 25% hlut í Netia og hefur gefið til kynna að félagið hafi áhuga á að auka hlut sinn.

Constantine Gonticas, stjórnarmaður í P4 og einn af stjórnendum Novators, segir að P4 muni fjárfesta um einn milljarð Bandaríkjadala (70 milljarðar íslenskra króna) á næstu þremur til fjórum árum í uppbyggingu þjónustunnar, sem áætlað er að fari í loftið á fyrsta ársfjórðungi árið 2007.

P4 mun verða fjórða farsímafyrirtækið í Póllandi og veita Polkomtel, PTC to Centertel samkeppni, en samtals eru hin fyrirtækin með um 30 milljónir notenda.

Farsímanotkun í Póllandi er mun minni en víða annars staðar í Mið-Evrópu og Gonticas segir P4 einblína á notendur sem hafa áhuga á að skipta um farsímafyrirtæki. Hann telur einnig að það taki um þrjú ár fyrir P4 að skila hagnaði.

Netia er annað stærsta símafyrirtæki Póllands á eftir TPSA, sem er í eigu France Telecom. Gengi hlutabréfa Netia hefur fallið um 18% á árinu.

Gonticas segir Novator hafa áhuga á að halda hlut sínum í Netia, en endurskipulagning fyrirtækisins og endurfjármögnun hafa tekið sinn toll og var fyrirtækið rekið með tapi á fyrri helmingi ársins. Einnig sagði forstjóri félagins Wojciech Maldaski upp störfum nýlega eftir fjögur ár við stjórnvölinn.

Gonticas segir Novator hafa tekið þátt í forstjórabreytingunum. ?Við erum hluthafar í Netia og forstjórabreytingarnar voru ekki gerðar án þess að við værum með í ráðum," segir hann.

Áætlað er að nýr forstjóri verði skipaður fyrir lok árs og segir Gonticas að líklegt sé að Pawel Karlowski, sem stýrir nú Netia tímabundið, verði ráðinn í starfið.