Hart var tekist á um rammaáætlun meirihluta umhverfis- og auðlindanefndar um verndun og nýtingu landsvæða þegar Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar, mælti fyrir henni í síðari umræðum á Alþingi í morgun. Sérstaklega var tekist á um þá sex virkjanakosti af 67 sem lagt er til að verði settir í bið. Mörður sagði mikilvægt að sátt náist um málið.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal þeirra sem brugðust hart við tillögum meirihluta nefndarinnar og vísaði hann því m.a. á bug að sátt hafi náðst um málið. Aðrir sem stigu í pontu gagnrýndu jafnframt að ekki hafi verið tekið mark á athugasemdum og rökum við rammaáætlunina.

Allir þeir sem fjölluðu um málið, jafnt Mörður sem stjórnarandstæðingar, töluðu umfram settan tíma og þurfti forseti Alþingis ítrekað og lengi að berja í bjöllu sem notuð er til að láta þingmenn vita að þeir eru komnir að tímamörkum.

Merði þótti Jóni leggjast lágt í gagnrýni sinni á málið og líkti málflutningnum við sandkassaleik. Mörður bætti við að hann gæti vel farið niður á sama stig.

Hann sagði:

„Pabbi þinn er örugglega þúsund sinnum sterkari en pabbi minn. Jón Gunnarsson getur ekki tekið hlutina annað en bókstaflega.“