Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, starfaði sem forstjóri 365 á árunum 2005-2014. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir hann aðalbreytinguna á fjölmiðlaumhverfinu á starfstíma hans hjá fyrirtækinu hafa verið stafrænu væðinguna og Internetið, auk þess sem hvað fjölmiðlageirinn þróaðist hratt í að vera alþjóðlegur. Opinberar stofnanir hafi hins vegar verið mjög seinar að átta sig á breyttum veruleika, til dæmis varðandi kröfur um sýningartíma og myndefni og mat á markaðshlutdeild.

„Í mikilli opinberri skýrslu frá 2005 töldu menn ekki taka því að ræða dreifingu sjónvarpsefnis um netið, það væri á svo litlum mæli að það væri ekki ástæða til að ræða það frekar. Sjö árum seinna þá var hátt í 90% af allri sjónvarpsdreifingu í gegnum netið, og algjörlega án landamæra. Og enskan lítil hindrun hér varðandi neyslu á afþreyingarefni. Það er alveg ljóst að fjölmiðlafyrirtæki mæta litlum skilningi varðandi það hverjar raunverulegar samkeppnisaðstæður eru hér gagnvart erlendum efnisveitum, til dæmis á íþróttasviðinu en líka á bíómynda- og þáttasviðinu,“ segir Ari.

„Þegar fimm þúsund heimili voru áskrifendur að Sky og tuttugu þúsund að Netflix þá litu þeir [Samkeppniseftirlitið, innsk. blm.] ennþá svo á að Stöð 2 og Skjárinn væru með 100% markaðarins í áskriftarsjónvarpi, og að Stöð 2 og RÚV kæmu hvor öðrum ekki við því þeir væru á algjörlega sitt hvorum markaðnum. Það er enginn fótur fyrir þessum pælingum. Þær eru algjörlega út í bláinn.“

Ítarlegt viðtal við Ara er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .