Frans páfi hefur sparkað öllum þeim sem sæti áttu í eftirlitsnefnd með fjármálum Vatíkansins. Fjölmörg hneykslismál hafa komið upp sem snúa að banka Vatíkansins og fjármálum páfagarðs í gegnum tíðina og þykir honum nú tími til kominn að gera skurk í málinu og endurskoða eftirlitið.

Í umfjöllun breska útvarpsins ( BBC ) segir að í nefndinni sitji fimm einstaklingar. Að öllu óbreyttu hefðu þeir átt að sitja til ársins 2016. Í sæti þeirra munu setjast sérfræðingar í fjármálum frá Ítalíu, Síngapúr, Sviss og Bandaríkjunum. Á meðal þeirra er Juan Zarate, sem var ráðgjafi George Bush þegar hann var forseti Bandaríkjanna.