Francis páfi hefur sett ritara sinn yfir tvær nefndir sem eiga að koma skikkan á fjármál Vatíkanbankans og fjármál Vatíkansins. Páfi setti nefndirnar á laggirnar fyrr á þessu ári og á ritarinn að hafa eftirlit með þeim og upplýsa páfa um gang mála.

AP-fréttastofan segir útnefninguna gerða svo páfi hafi meiri yfirsýn yfir málin áður en hann fundar með kardínálum um fjárhag Vatíkansins.

Fjármálahneyksli hefur öðru hverju komið upp í banka Vatíkansins en stjórnendur hans hafa m.a. verið sakaðir um peningaþvætti.

Mikil leynd hefur ávallt hvílt yfir starfsemi bankans en svo virðist sem Francis páfi vilji hreinsa nafn og auka virðingu bankans. Rannsóknarnefndina skipa kardínálar frá fjórum löndum auk Mary Ann Glendon, prófessor við Harvard háskóla og fv. sendiherra Bandaríkjanna í Vatíkaninu.