Frans páfi hefur lagt orð í belg vegna umræðu um tjáningarfrelsi sem víða hefur skotið upp kollinum í kjölfar þess að ofbeldismenn gerðu árás á ritstjórnarskrifstofur skoptímaritsins Charlie Hebdo.

Þannig greinir Wall Street Journal frá því að páfinn hafi látið hafa eftir sér að enginn gæti drepið aðra manneskju í nafni guðs. Það væri hreinlega afbrigðilegt.

Hann bætti því hins vegar við að til væru tilvik þar sem gera mætti takmarkanir á tjáningarfrelsinu og tók sérstakt dæmi.

„Maður má ekki bregðast við með ofbeldi, en ef einhver segir eitthvað slæmt um móður mína má sá hinn sami búast við hnefahöggi. Slíkt er alltaf viðbúið,“ sagði páfinn.