Páfinn hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að það sé skoðun Vatíkansins að kaþólskum prestum beri að sýna fráskildu fólki meiri skilning og kærleik.

Þetta kemur fram í skjalinu “Amoris Laetitia”, sem útleggst á íslensku sem „Gleði ástarinnar,” og snertir á viðhorfum Vatíkansins á stöðu nútímafjölskyldna gagnvart ströngum reglugerðum trúarbragðsins um hvernig fjölskyldum ber að haga sér.

Í skjalinu, sem er að sögn Financial Times með þeim mikilvægustu sem Páfinn hefur gefið út síðan hann tók við árið 2013, segir hann að fráskilið fólk ætti að fá fleiri tækifæri til að vera hluti af trúarsöfnuðum.

Þrátt fyrir að Vatíkanið virðist vilja létta á því hvernig komið er fram við fráskilið fólk gerði það einnig skýrt í skjalinu að það sé andsnúið því að samkynhneigðir fái að ganga í hjónaband í kaþólskum kirkjum.