*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 14. maí 2019 07:30

Pakistan fær 740 milljarða lán frá AGS

Lánið verður notað til að styrkja gjaldeyrissjóð landsins, sem stendur illa vegna erfiðra efnahagsaðstæðna.

Júlíus Þór Halldórsson
Christine Lagarde hefur verið framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2011, en þar áður var hún fjármálaráðherra Frakklands.

Pakistan og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa komist að samkomulagi um 6 milljarð dala lán – ígildi um 740 milljarða króna – til að styrkja gjaldeyrisforða landsins, sem hefur farið hratt þverrandi síðastliðið ár samhliða versnandi efnahagsaðstæðum.

Fjármálaráðuneyti Pakistans tilkynnti um lánið á laugardagskvöld, sem er til þriggja ára. Láninu fylgir skuldbinding af hálfu Suður-Asíuríkisins um að gerðar verði endurbætur á stjórn ríkisfjármála. Abdul Hafeez Shaikh, fjármálaráðherra, sagði að áhersla yrði lögð á að hlífa þeim tekjulægstu sérstaklega.

Í tilkynningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um málið segir að landið standi frammi fyrir erfiðu efnahagsumhverfi: hagvöxtur sé veikur, verðbólga talsverð og bæði skuldastaða landsins og staða þess gagnvart útlöndum erfið.

Ójöfn og sveifluýkjandi ríkisfjármál“
Í tilkynningu sjóðsins segir ennfremur að ástæða erfiðleikanna sé ójöfn og sveifluýkjandi stjórn ríkisfjármála síðustu ár, í því skyni að kynda undir hagvöxt, en á sama tíma gert hagkerfið viðkvæmt fyrir áföllum og veikt stofnanir þess.

Meðal þess sem sjóðurinn er sagður gera kröfu um er að gengi gjaldmiðils landsins, Pakistönsku rúblunnar, verði leyft að fljóta og ráðast á frjálsum markaði, auk þess sem umboð og sjálfstæði seðlabankans verði aukið.

Yfir 200 milljón manns búa í Pakistan, en aðeins rúm milljón þeirra skilaði skattskýrslu í fyrra, og af þeim greiddi aðeins rúmur helmingur skatta.

Umfjöllun Financial Times.