Stærstu rútufyrirtæki landsins hafa eins og önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu þurft að leggja rútunni og pakka í vörn á meðan kórónuveirufaraldurinn og áhrif vegna hans ganga yfir. Líkt og með önnur fyrirtæki sem eiga að stærstum hluta í viðskiptum við erlenda aðila er spurningin ekki hve lengi ástandið muni vara hér á landi heldur frekar hve lengi það varir í þeim löndum sem stærstur hluti ferðamanna kemur frá. Þá ríkir einnig mikil óvissa um hvernig viljinn til ferðalaga muni verða að faraldrinum loknum og gera svartsýnustu spár ráð fyrir að ferðamennska í sumar verði lítil, muni ekki taka við sér fyrr en á haustmánuðum og það muni í raun taka nokkur ár fyrir greinina að ná sér á nýjan leik á heimsvísu.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í haust nam velta fjögurra stærstu rútufyrirtækja landsins, Kynnisferða, Allrahanda GL (Gray Line), Snæland Grímsson og Hópbíla, um 17,4 milljörðum króna og hafði þá aukist um tvo milljarða frá árinu 2016. Kynnisferðir eru langstærsta rútufyrirtæki landsins með veltu upp á 9,1 milljarð árið 2018 á meðan velta hinna félaganna var á bilinu 2,3 til 3,1 milljarður.

Þrátt fyrir aukna veltu hefur afkoma af hópbifreiðaakstri dregist töluvert saman en samtals skiluðu félögin fjögur 338 milljóna tapi á síðasta ári og hafði heildarafkoman versnað um 742 milljónir frá árinu 2016. Ekkert fyrirtækjanna hefur enn birt ársreikning fyrir síðasta ár en eftir falll Wow air má gera ráð fyrir því að í besta falli hafi afkoma og veltan staðið í stað þó að líklegra sé að árið í fyrra hafi verið nokkuð þyngra en 2018.

Fyrir utan fall WOW air með tilheyrandi fækkun ferðamanna skýrist verri afkoma síðustu ára meðal annars af því að ákveðin offjárfesting hefur átt sér stað og hefur mikill fjöldi fyrirtækja og bíla gert það að verkum  að framboð hefur verið of mikið, verð hafa lækkað á sama tíma og kostnaður hefur vaxið. Þá hefur töluverður fjöldi fyrirtækja í greininni átt í rekstrarvanda um þónokkurt skeið en miðað við ársreikninga fyrir árið 2018 voru að minnsta kosti sex fyrirtæki sem uppfylltu ekki eiginfjárkröfur sem eru grundvöllur rekstrarleyfis til fólksflutninga og gefin eru út af Samgöngustofu. Voru sum þeirra meðal stærri fyrirtækja í greininni.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins frá því í haust nefndu viðmælendur blaðsins að það að fyrirtæki sem væru mjög illa stödd fjárhagslega fengju að starfa áfram óáreitt skekkti samkeppnisstöðu á markaðnum þar sem verðum er ýtt niður í von um að geta rétt úr kútnum. Þá hafði fall WOW air á síðasta ári einnig töluverð áhrif á rekstur síðasta árs sem gerir það að verkum að rútufyrirtækin og ferðaþjónustan í heild sinni er að koma inn í ástandið eftir ár sem reyndist erfitt sem líklega gerir róðurinn nú enn þyngri. Á móti kemur að sum fyrirtækjanna höfðu fyrir árið í ár dregið úr umfangi starfseminnar sem gerir það að verkum að höggið verður eilítið léttara.

Gera má ráð fyrir að fyrirtækin í greininni verði nær tekjulaus næstu vikur og mánuði en þó er munur á milli félaga eftir því hver stór hluti af starfsemi þeirra felst í samningsbundum akstri eins og skólabíla eða aksturs fyrir aðila eins og Strætó þó að núverandi aðstæður hafi einnig dregið úr umfangi þeirrar starfsemi. Til þess að bregðast við ástandinu hafa nær öll fyrirtækin nýtt hlutabótaúrræði ríkisstjórnarinnar auk þess sem bílar hafa verið teknir af númerum svo ekki þurfi að greiða af þeim gjöld eins og tryggingar og bifreiðagjöld á meðan þeir standa óhreyfðir. Árið 2018 störfuðu 819 manns hjá félögunum fjórum en þeim fækkaði eitthvað á síðasta ári samhliða uppsögnum eftir fall WOW air en á móti kemur að verktakar eru ekki inni í þessari tölu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .