*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 1. maí 2018 18:03

Pakkar stækka og verð lækka

Í kjölfar samruna Fjarskipta (nú Sýn) og 365 hefur Sýn ákveðið að stækka staka sjónvarpspakka Stöðvar 2 og lækka áskriftarverð.

Ritstjórn
Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar.
Haraldur Guðjónsson

Frá og með morgundeginum stækka valdir sjónvarpspakkar Stöðvar 2 og mun verð á öðrum pökkum lækka frá og með næsta reikningi til viðskiptavina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn.

Stök áskrift að Stöð 2 Sport verður í boði á 9.990 krónur og Sportpakkinn á 11.990 krónur. Áður var einungis hægt að fá aðgengi að íþróttaefni Stöðvar 2 í gegnum Sportpakkann á 14.990 krónur. Streymisveitan Stöð 2 Maraþon stækkar og verð lækkar úr 2.990 krónum í 1.990 krónur. Skemmtipakkinn stækkar með miklu magni af ólínulegu efni án þess að verð breytist. Stök áskrift að Stöð 2 lækkar einnig úr 8.990 krónum í 6.990 krónur.

Breytingarnar tengjast kaupum Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, (nú Sýn) á eignum og rekstri ljósvakamiðla og fjarskiptaþjónustu 365 miðla, en samruninn gekk í gekk í gegn fyrir fimm mánuðum síðan. Stefnt er að því að flytja fjölmiðlasvið Sýnar úr Skaftahlíð yfir í nýjar höfuðstöðvar sameinaðst fyrirtækis að Suðurlandsbraut fyrir sumarið og ljúka þeim flutningum fyrir árslok.

„Með þessum breytingum erum við að sækja fram með Stöð 2 á sviði sjónvarpsþjónustu. Allir eiga að geta fundið þjónustu við sitt hæfi og notið íslensks og erlends gæðaefnis. Við vonum að þessum breytingum verði vel tekið af neytendum og geti þannig stutt sterkari samkeppnishæfni íslenskrar fjölmiðlunar og menningar til hagsbóta fyrir landsmenn alla,“ segir Stefán Sigurðsson forstjóri Sýnar.

„Það er gleðilegt að geta bæði aukið gæði þjónustunnar og breytt verðum fyrir neytendur. Það er mikill kraftur í fjölmiðlum okkar og starfsfólki þessa dagana og við lítum á þessar breytingar sem staðfestingu á nýju upphafi Stöðvar 2 og allra okkar miðla. Við vonumst til að breytingarnar fjölgi þeim sem fá að njóta okkar frábæra efnis, segir Björn Víglundsson, framkvæmdastjóri Miðla Sýnar.