Filipeyska flugfélagið Philippine Airlines (PAL) gekk í gærmorgun frá pöntun á 54 nýjum vélum hjá evrópska flugvélaframleiðandanum Airbus. Listaverð pöntunarinnar er um 7 milljarðar Bandaríkjadala.

Félagið staðfesti pöntun á 34 Airbus A321 vélum, tíu A321neo vélum og tíu A330-300 breiðþotum. Á vef flugtímaritsins Flighglobal kemur fram að fyrstu vélarnar verða afhentar á miðju næsta ári. Ekki er enn búið að velja hreyfla á vélarnar en algengt er að það sé gert með skömmum fyrirvara áður en þær eru afhentar, enda einn dýrasti þáttur í flugvélakaupum.

PAL mun starfrækja A321 vélarnar í innanlandsflug og flug til nærliggjandi eyja en nota A330 vélarnar í millilanda flug til Mið-Austurlanda, Asíu, N-Ameríku og Ástralíu.

Pöntun PAL á nýjum vélum kemur ekki á óvart í flugheiminum en félagið hefur þó átt í nokkrum rekstrarerfiðleikum síðustu ár sem skýrist að mestu leyti af harðri samkeppni við filipeyska lággjaldaflugfélagið Cebu Pacific (sem er nú með stærsta markaðshlutdeild á Filippseyjum).

PAL hefur þó snúið vörn í sókn og tilkynnt áætlanir um að endurnýja flugflota sinn með kaupum á 100 nýjum flugvélum næstu tíu árin. Bjórframleiðandinn Sam Miguel keypti fyrr á þessu ári 49% hlut í félaginu og jók hlutafé félagsins um 500 milljónir dala, sem að hluta til voru notaðar til að staðfesta kaupin á fyrrnefndum vélum.

Flugfloti PAL stendur í dag saman af 38 vélum þannig að með fyrrnefndri pöntun er félagið að tvöfalda flugflotann sinn og gott betur. Félagið á fjórar Airbus 319 vélar, 15 A320 vélar, átta A330 vélar og fjórar A340 vélar. Þá á félagið einnig fimm Boeing 747-400 vélar og þrjár Boeing 777n-300ER vélar.

Airbus A330 vél í litum Philippine Airlines.
Airbus A330 vél í litum Philippine Airlines.

Airbus A330 vél í litum Philippine Airlines.