*

miðvikudagur, 28. október 2020
Erlent 25. september 2020 13:48

Palantir metið á 22 milljarða dala

Tæknifyrirtækið verður skráð á markað í næstu viku, þó ekki með hefðbundnu frumútboði.

Ritstjórn
Alex Karp er stofnandi og forstjóri Palantir.

Ráðgjafar bandaríska tæknifyrirtækisins Palantir meta félagið á um 22 milljarða dala. Félagið verður skráð á markað næsta miðvikudag, en ekki verður haldið sérstakt frumútboð eins og venjan er. Wall Street Journal segir frá.

Í stað þess að halda frumútboð verða þegar útistandandi hlutabréf einfaldlega tekin til viðskipta í kauphöll, þar sem verðmyndun á sér stað.

Bankamenn á vegum Palantir hafa sagt fjárfestum að bréfin gætu hafið viðskipti á um 10 dali á hlut, en það myndi gefa félaginu heildarmarkaðsvirði upp á ofangreinda 22 milljarða dala, um 3.000 milljarða íslenskra króna, sem er rétt rúm landsframleiðsla Íslands á síðasta ári.

Verð á bréfum Palantir hefur hækkað jafnt og þétt síðastliðið ár segir í frétt Wall Street Journal um málið. Í ágúst hafi meðalverð verið um 7,3 dalir, en nú í september sé það komið í 9,2. Leiddar eru að því líkur að það verð, sem birt er af kauphöllinni, verði viðmið fyrir upphafsverð bréfanna þar þegar viðskipti með þau hefjast.

Stikkorð: Palantir